Grace Achieng er einstæð 38 ára gömul móðir sem ákvað að nema land á Íslandi. Hún flutti upphaflega hingað til lands 2010 vegna ástarinnar. Hún er með BA-próf í markaðsfræði og er í BA-námi í íslensku sem annað mál. Hún ákvað að láta drauma sína rætast því henni finnst lífið dýrmætara en að festast í fátækt og vera þræll láglaunastarfa.
Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?
„Eftir að hafa verið föst í láglaunastörfum sem ég sá enga framtíð í ákvað ég einn daginn að það væri kominn tími á breytingar. Ég áttaði mig á því að það myndi enginn breyta stöðunni nema ég sjálf svo ég ákvað að taka af skarið. Ég þurfti að trúa á sjálfa mig til að komast yfir fortíðina, ótta og alls konar takmarkanir sem ég hafði búið til í höfðinu á mér. Ég vissi að ég gæti meira og ég vissi að ég þurfti að finna leiðirnar til að láta það gerast. Svo stofnaði ég Gracelandic ehf. Svo hefur Félag kvenna í atvinnulífinu veitt mér ómetanlegan stuðning og ráð. Félagsstarfið er einstaklega nærandi, áhugavert og hefur víkkað sjóndeildarhringinn, aukið þekkingu og stækkað tengslanetið mitt,“ segir Achieng.
Gracelandic ehf. er netverslun sem selur kvenfatnað og fylgihluti sem byggja á sjálfbærum lífsstíl og einfaldleika.
„Markmið Gracelandic er að bjóða upp tískuvörur sem byggja á sjálfbærni og er okkur mjög hugað um velferð samstarfsaðila og umhverfið. Gagnsæi og sanngirnisvottun er grunnforsenda Gracelandic. Ástríða okkar liggur í hugmyndafræðinni að velgengni fyrirtækisins geti skapað virði fyrir alla, kaupendur, jörðina og fyrirtækið sjálft. Sjálfbær framleiðsla er mér hugleikin, því ódýr fatnaður og efni sem við losum okkur við hér á Vesturlöndum er sendur til Afríku. Fyrir utan að það drepur sjálfstæða framleiðslu á fatnaði í Afríku, þá er þetta er ekki gjöf, þetta er business, það selst einungis um 10% af þessum fatnaði og restin endar á ruslahaugum. Hönnun okkar er praktísk, einföld og gæti gengið við hvaða tilefni sem er. Viðskiptavinurinn er frjáls að velja, raða saman og skapa sér persónulegan stíl. Gracelandic gerir konum kleift að líða vel og líta vel út en á sama tíma að sýna samfélagslega ábyrgð,“ segir hún.
Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?
„Allt. Vegna þess að ég vissi ekki hvað ég var að gera, en ég ákvað að það er hægt að borða fílinn, en ekki í einum bita. Ég lærði rosalega mikið á þessum tíma. Ég minnist þess að hafa hugsað mér að skrá mig í fumkvöðlaáfanga en átta mig á að ég var búin að fara í gegnum allt sem áfanginn snerist um. Það er mikil vinna. Sérstaklega þegar maður er einn að standa í þessu og hefur ekki fjárfesta til að hjálpa við fjármögnun,“ segir hún og bætir því við að það hafi ekki verið neitt grín að finna framleiðanda fyrir vörunar í miðjum kórónaveirufaraldri.
„Það var ógnvekjandi tilhugsun að treysta einhverjum sem ég þekkti ekki neitt fyrir aleigunni. Ég setti allt í þetta sem ég átti, en það borgaði sig.“
Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?
„Ástríða. Án þess að hafa ástríðu er auðvelt að gefast upp og verkefnið verður að kvöð í stað áhugamáls. Þú verður að þora. Þú þarft að taka ákvörðunina um að taka skrefið og viðurkenna að það verða áskoranir á leiðinni og að þú munt finna lausnir. Stærsta ákvörðunin er huglæg. Einlægni og góðmennska - þessir tveir eiginleikar eru vanmetnir.“
Hvernig var þinn ferill?
„Þegar ég fékk ekki vinnu við áhugamálið hér á landi ákvað ég samt að gefast ekki upp, svo ég keypti mér saumavél og fataefni. Ég byrjaði á því að læra í gegnum YouTube og „gerðu það sjálfur“ (e. do it yourself) -síður á netinu, Pinterest og svo framvegis. Síðan fór ég á námskeið hér og þar sem hjálpaði mér við að koma á framfæri hlutum og flíkum sem ég hafði hannað sjálf. Árið 2015 fór ég og keypti efni og bjó til mína eigin línu fyrir tískusýningu. Um svipað leyti fór ég á námskeið hjá íslenskum fatahönnuði, sem rak á þessum tíma stórt fatahönnunarfyrirtæki. Þar lærði ég að vinna með hugmyndir mínar og breyta þeim í vöru. Áður hafði ég farið á saumanámskeið og lært að sníða. Þrátt fyrir að hafa gengið með þann draum í maganum í að stofna mitt eigið fyrirtæki hélt ég að það væri ómögulegt fyrir mig á þessum tíma. Ég þurfti að vinna til að sjá fyrir mér og dóttur minni. Ég lagði því draum minn til hliðar og vann á leikskóla. Árið 2020 ákvað ég að fjárfesta í sjálfri mér og fór til lífsstílsþjálfara. Tilhugsunin um að kýla á þetta var svo ógnvekjandi en ég man að hún spurði mig „Hvernig myndi þér líða ef þú myndir þora?“ Það sem kom upp í hugann á mér var „frjáls“. Ég hafði enga áætlun, ég vissi bara að ég yrði að byrja. Þegar ég stofnaði fyrirtækið hafði ég lítið sem ekkert, bara ástríðu og ákafa. En eftir að hafa lent í slysi fékk ég bætur og ákvað að nota þær til þess að stofna hlutafélag. Ég vissi að ég yrði að stofna þetta formlega, því það setti ákveðna pressu á mig að taka þetta alvarlega og leiddi mig af stað skref fyrir skref. Svo ég ákvað nafnið og fór og skráði það. Þá var komið nafn og kennitala, þá vantaði mig vörumerki, svo að fá einkaleyfi á nafnið og vörumerkið, setja upp vefsíðu. Svona var þetta eins og snjóbolti sem vatt upp á sig. Ég hafði aldrei sett upp vefsíðu á ævinni og ég er ekki sú tæknivæddasta, en ég setti upp Gracelandic vefsíðuna. Ég keypti mér námskeið í vefsíðugerð hjá Udemy og svo varð YouTube.com minn besti vinur. Ég fór á excel námskeið hjá PROMMENT. Ég gerði markaðsrannsóknir, leitaði að upplýsingum um tískuiðnaðinn og þá lærði ég um sjálfbæra tísku og svokallaða slow fashion. Ég tók námskeið í því að stofna tískufyrirtæki. Svo þurfti ég að finna framleiðanda,“ segir hún.
Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?
„Daginn sem ég setti / launch-aði Gracelandic formlega á markað, þann 21. júlí, 2021, grét ég. Svo hefur Gracelandic laðað að sér áberandi viðskiptavini sem klæðast flíkunum við ýmis tilefni. Til dæmis Eliza Reid forsetafrú klæddist Gracelandic þegar Friðrik, krónprins Danmerkur, mætti á Bessastaði. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gerði það einnig þegar hún hitti forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, og var nýlega aftur í samfestingnum við undirritun yfirlýsingar um skráningu á stríðstjóni í Úkraínu á leiðtogafundi Evrópuráðsins á Íslandi. Breska Vogue-tímaritið hefur fjallað um okkur oftar en einu sinni og vakti athygli á hönnunarmerkinu erlendis. Ég stefni á að gera Gracelandic að alþjóðlegu fatamerki og er rétt að byrja.“
Hvað gefur vinnan þér?
„Tilfinningu um lífsfyllingu, frið. Ég er alls ekki ennþá þar sem mig langar að vera en ég er að vinna í því daglega. Einnig að átta mig á því að þegar þú fylgir draumum þínum verður þú sjálfkrafa innblástur fyrir aðra. Það gleður mig að hjálpa öðrum því ég veit hvernig það er að vera föst. Margar konur, bæði íslenskar og erlendar, hafa leitað til mín og beðið um ráðleggingar um frumkvöðlastarfsemi eða almennt um rekstur eigin fyrirtækis og það gleður mig að að þær skuli leita til mín. Ég vona að minn árangur opni hliðið fyrir öllum konum.“
Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?
„Ó já. Ég hef oftast tilhneigingu til að vilja gera hluti núna, ég lít á áskoranir sem verkefni svo fer ég í eitthvað „mission“ til að klára verkið. Núna reyni ég að taka daginn frá, mitt „sabbath“ þar sem ég geri bara allt sem gleður mig og hjálpar mér að rækta mitt andlega líf, s.s. þögn og einsemd, lesa fræðandi bækur, vera í náttúrunni og alls kyns útivist, hlusta á góða tónlist, sérstaklega gospel-tónlist. Eyða tíma með dóttur minni og borða góðan mat.“
Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?
„Rannsókn frá 2021 sýndi að 40,9% kvenna útskrifuðust úr háskólanámi á Íslandi á móti 29,1% karla. En þessar tölur endurspeglast ekki í stjórnenda
stöðum fyrirtækja. Auk þess finnst mér að fjölbreytileiki í atvinnulífinu í nútímasamfélagi eigi ekki bara að snúast um kyn heldur líka þjóðerni, kynþátt og hverjar þær skilgreiningar sem eru notaðar um fólk. Það sem á að skipta máli er hæfni, reynsla og menntun.“
Comments