top of page
Writer's pictureGrace Achieng

Ég vissi að ég gæti meira og ég vissi að ég þurfti að finna leiðirn­ar til að láta það ger­ast.


Grace Achieng er ein­stæð 38 ára göm­ul móðir sem ákvað að nema land á Íslandi. Hún flutti upp­haf­lega hingað til lands 2010 vegna ástar­inn­ar. Hún er með BA-próf í markaðsfræði og er í BA-námi í ís­lensku sem annað mál. Hún ákvað að láta drauma sína ræt­ast því henni finnst lífið dýr­mæt­ara en að fest­ast í fá­tækt og vera þræll lág­launastarfa.


Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Eft­ir að hafa verið föst í lág­launa­störf­um sem ég sá enga framtíð í ákvað ég einn dag­inn að það væri kom­inn tími á breyt­ing­ar. Ég áttaði mig á því að það myndi eng­inn breyta stöðunni nema ég sjálf svo ég ákvað að taka af skarið. Ég þurfti að trúa á sjálfa mig til að kom­ast yfir fortíðina, ótta og alls kon­ar tak­mark­an­ir sem ég hafði búið til í höfðinu á mér. Ég vissi að ég gæti meira og ég vissi að ég þurfti að finna leiðirn­ar til að láta það ger­ast. Svo stofnaði ég Gracelandic ehf. Svo hef­ur Fé­lag kvenna í at­vinnu­líf­inu veitt mér ómet­an­leg­an stuðning og ráð. Fé­lags­starfið er ein­stak­lega nær­andi, áhuga­vert og hef­ur víkkað sjón­deild­ar­hring­inn, aukið þekk­ingu og stækkað tengslanetið mitt,“ seg­ir Achieng.

Gracelandic ehf. er net­versl­un sem sel­ur kven­fatnað og fylgi­hluti sem byggja á sjálf­bær­um lífs­stíl og ein­fald­leika.

„Mark­mið Gracelandic er að bjóða upp tísku­vör­ur sem byggja á sjálf­bærni og er okk­ur mjög hugað um vel­ferð sam­starfsaðila og um­hverfið. Gagn­sæi og sann­girn­is­vott­un er grunn­for­senda Gracelandic. Ástríða okk­ar ligg­ur í hug­mynda­fræðinni að vel­gengni fyr­ir­tæk­is­ins geti skapað virði fyr­ir alla, kaup­end­ur, jörðina og fyr­ir­tækið sjálft. Sjálf­bær fram­leiðsla er mér hug­leik­in, því ódýr fatnaður og efni sem við los­um okk­ur við hér á Vest­ur­lönd­um er send­ur til Afr­íku. Fyr­ir utan að það drep­ur sjálf­stæða fram­leiðslu á fatnaði í Afr­íku, þá er þetta er ekki gjöf, þetta er bus­iness, það selst ein­ung­is um 10% af þess­um fatnaði og rest­in end­ar á ruslahaug­um. Hönn­un okk­ar er praktísk, ein­föld og gæti gengið við hvaða til­efni sem er. Viðskipta­vin­ur­inn er frjáls að velja, raða sam­an og skapa sér per­sónu­leg­an stíl. Gracelandic ger­ir kon­um kleift að líða vel og líta vel út en á sama tíma að sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð,“ seg­ir hún.


Hverj­ar voru helstu áskor­an­irn­ar á leiðinni?


„Allt. Vegna þess að ég vissi ekki hvað ég var að gera, en ég ákvað að það er hægt að borða fíl­inn, en ekki í ein­um bita. Ég lærði rosa­lega mikið á þess­um tíma. Ég minn­ist þess að hafa hugsað mér að skrá mig í fum­kvöðlaáfanga en átta mig á að ég var búin að fara í gegn­um allt sem áfang­inn sner­ist um. Það er mik­il vinna. Sér­stak­lega þegar maður er einn að standa í þessu og hef­ur ekki fjár­festa til að hjálpa við fjár­mögn­un,“ seg­ir hún og bæt­ir því við að það hafi ekki verið neitt grín að finna fram­leiðanda fyr­ir vör­un­ar í miðjum kór­óna­veirufar­aldri.

„Það var ógn­vekj­andi til­hugs­un að treysta ein­hverj­um sem ég þekkti ekki neitt fyr­ir al­eig­unni. Ég setti allt í þetta sem ég átti, en það borgaði sig.“


Hvað skipt­ir máli að hafa í huga ef fólk ætl­ar að ná langt á vinnu­markaði?

„Ástríða. Án þess að hafa ástríðu er auðvelt að gef­ast upp og verk­efnið verður að kvöð í stað áhuga­máls. Þú verður að þora. Þú þarft að taka ákvörðun­ina um að taka skrefið og viður­kenna að það verða áskor­an­ir á leiðinni og að þú munt finna lausn­ir. Stærsta ákvörðunin er hug­læg. Ein­lægni og góðmennska - þess­ir tveir eig­in­leik­ar eru van­metn­ir.“



Hvernig var þinn fer­ill?

„Þegar ég fékk ekki vinnu við áhuga­málið hér á landi ákvað ég samt að gef­ast ekki upp, svo ég keypti mér sauma­vél og fata­efni. Ég byrjaði á því að læra í gegn­um YouTu­be og „gerðu það sjálf­ur“ (e. do it your­self) -síður á net­inu, Pin­t­erest og svo fram­veg­is. Síðan fór ég á nám­skeið hér og þar sem hjálpaði mér við að koma á fram­færi hlut­um og flík­um sem ég hafði hannað sjálf. Árið 2015 fór ég og keypti efni og bjó til mína eig­in línu fyr­ir tísku­sýn­ingu. Um svipað leyti fór ég á nám­skeið hjá ís­lensk­um fata­hönnuði, sem rak á þess­um tíma stórt fata­hönn­un­ar­fyr­ir­tæki. Þar lærði ég að vinna með hug­mynd­ir mín­ar og breyta þeim í vöru. Áður hafði ég farið á sauma­nám­skeið og lært að sníða. Þrátt fyr­ir að hafa gengið með þann draum í mag­an­um í að stofna mitt eigið fyr­ir­tæki hélt ég að það væri ómögu­legt fyr­ir mig á þess­um tíma. Ég þurfti að vinna til að sjá fyr­ir mér og dótt­ur minni. Ég lagði því draum minn til hliðar og vann á leik­skóla. Árið 2020 ákvað ég að fjár­festa í sjálfri mér og fór til lífs­stílsþjálf­ara. Til­hugs­un­in um að kýla á þetta var svo ógn­vekj­andi en ég man að hún spurði mig „Hvernig myndi þér líða ef þú mynd­ir þora?“ Það sem kom upp í hug­ann á mér var „frjáls“. Ég hafði enga áætl­un, ég vissi bara að ég yrði að byrja. Þegar ég stofnaði fyr­ir­tækið hafði ég lítið sem ekk­ert, bara ástríðu og ákafa. En eft­ir að hafa lent í slysi fékk ég bæt­ur og ákvað að nota þær til þess að stofna hluta­fé­lag. Ég vissi að ég yrði að stofna þetta form­lega, því það setti ákveðna pressu á mig að taka þetta al­var­lega og leiddi mig af stað skref fyr­ir skref. Svo ég ákvað nafnið og fór og skráði það. Þá var komið nafn og kennitala, þá vantaði mig vörumerki, svo að fá einka­leyfi á nafnið og vörumerkið, setja upp vefsíðu. Svona var þetta eins og snjó­bolti sem vatt upp á sig. Ég hafði aldrei sett upp vefsíðu á æv­inni og ég er ekki sú tækni­vædd­asta, en ég setti upp Gracelandic vefsíðuna. Ég keypti mér nám­skeið í vefsíðugerð hjá Udemy og svo varð YouTu­be.com minn besti vin­ur. Ég fór á excel nám­skeið hjá PROMM­ENT. Ég gerði markaðsrann­sókn­ir, leitaði að upp­lýs­ing­um um tískuiðnaðinn og þá lærði ég um sjálf­bæra tísku og svo­kallaða slow fashi­on. Ég tók nám­skeið í því að stofna tísku­fyr­ir­tæki. Svo þurfti ég að finna fram­leiðanda,“ seg­ir hún.


Fannst þér þú upp­skera á ein­hverj­um tíma­punkti að þú vær­ir búin að ná mark­miðum þínum?

„Dag­inn sem ég setti / launch-aði Gracelandic form­lega á markað, þann 21. júlí, 2021, grét ég. Svo hef­ur Gracelandic laðað að sér áber­andi viðskipta­vini sem klæðast flík­un­um við ýmis til­efni. Til dæm­is El­iza Reid for­setafrú klædd­ist Gracelandic þegar Friðrik, krón­prins Dan­merk­ur, mætti á Bessastaði. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra gerði það einnig þegar hún hitti for­seta Banda­ríkj­anna, Joe Biden, og var ný­lega aft­ur í sam­fest­ingn­um við und­ir­rit­un yf­ir­lýs­ing­ar um skrán­ingu á stríðstjóni í Úkraínu á leiðtoga­fundi Evr­ópuráðsins á Íslandi. Breska Vogue-tíma­ritið hef­ur fjallað um okk­ur oft­ar en einu sinni og vakti at­hygli á hönn­un­ar­merk­inu er­lend­is. Ég stefni á að gera Gracelandic að alþjóðlegu fata­merki og er rétt að byrja.“


Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Til­finn­ingu um lífs­fyll­ingu, frið. Ég er alls ekki ennþá þar sem mig lang­ar að vera en ég er að vinna í því dag­lega. Einnig að átta mig á því að þegar þú fylg­ir draum­um þínum verður þú sjálf­krafa inn­blást­ur fyr­ir aðra. Það gleður mig að hjálpa öðrum því ég veit hvernig það er að vera föst. Marg­ar kon­ur, bæði ís­lensk­ar og er­lend­ar, hafa leitað til mín og beðið um ráðlegg­ing­ar um frum­kvöðla­starf­semi eða al­mennt um rekst­ur eig­in fyr­ir­tæk­is og það gleður mig að að þær skuli leita til mín. Ég vona að minn ár­ang­ur opni hliðið fyr­ir öll­um kon­um.“


Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Ó já. Ég hef oft­ast til­hneig­ingu til að vilja gera hluti núna, ég lít á áskor­an­ir sem verk­efni svo fer ég í eitt­hvað „missi­on“ til að klára verkið. Núna reyni ég að taka dag­inn frá, mitt „sabb­ath“ þar sem ég geri bara allt sem gleður mig og hjálp­ar mér að rækta mitt and­lega líf, s.s. þögn og ein­semd, lesa fræðandi bæk­ur, vera í nátt­úr­unni og alls kyns úti­vist, hlusta á góða tónlist, sér­stak­lega gospel-tónlist. Eyða tíma með dótt­ur minni og borða góðan mat.“

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Rann­sókn frá 2021 sýndi að 40,9% kvenna út­skrifuðust úr há­skóla­námi á Íslandi á móti 29,1% karla. En þess­ar töl­ur end­ur­spegl­ast ekki í stjórn­enda

­stöðum fyr­ir­tækja. Auk þess finnst mér að fjöl­breyti­leiki í at­vinnu­líf­inu í nú­tíma­sam­fé­lagi eigi ekki bara að snú­ast um kyn held­ur líka þjóðerni, kynþátt og hverj­ar þær skil­grein­ing­ar sem eru notaðar um fólk. Það sem á að skipta máli er hæfni, reynsla og mennt­un.“






18 views0 comments

Comments


bottom of page