Grace Achieng hefur búið á Íslandi í 11 ár en áður en hún flutti hingað vissi hún ekki að til væri land sem héti Ísland. Henni gekk jafnvel illa að finna það á landakorti. Hún hefur fest rætur á Íslandi og Gracelandic er nýtt tískuvörumerki sem hún á heiðurinn að.
Grace er fædd og uppalinn í borginni Kisumu sem er þriðja stærsta borg Kenýa. Hún lagði stund á nám í markaðsfræði í háskóla í Mombasa áður en hún flutti til Íslands 25 ára gömul. Landinu kynntist hún fyrst í gegnum samskipti við Íslending á netinu og neitaði að trúa honum þegar hann sagðist vera frá Íslandi. Hélt jafnvel að hann væri að vísa til veðurfarsins hér þegar hann talaði um Ísland. Þrátt fyrir að hafa leitað á korti gekk illa að finna þennan litla depil sem átti að vera á milli Grænlands og Bretlands. Nú 11 árum síðar er hún búin að koma sér vel fyrir á Íslandi og er með eigin rekstur, draumar hennar eru á góðri leið með að rætast.
Þegar Grace flutti til Íslands hafði hún áhuga á að starfa við tísku en fékk hvergi slíka vinnu, hvort sem það var í fatabúðum eða öðru á því sviði, þannig að hún vann ýmis störf fyrstu árin, svo sem í fiskvinnslu og við umönnun. Síðustu árin hefur hún unnið á leikskóla og stefnir á BA-nám í íslensku við Háskóla Íslands í haust.
Kjóll sem markaði upphafið
„Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og þegar ég var sex ára gömul gaf frænka mín mér kjól sem ég dáðist mikið að og fannst gaman að klæðast,“ segir Grace í samtali við blaðamann mbl.is. Frænka hennar var alltaf í fallegum fötum og vel til fara en hún átti tískuvöruverslanir bæði í Kisumu og í Naíróbí, höfuðborg Kenýa. „Ég gleymi því aldrei hvernig mér leið þegar ég fór í kjólinn og ég leit alltaf upp til frænku minnar.“
Þegar Grace var 16 ára gömul fór hún að leggja til hliðar peninga sem hún átti að nota til að kaupa sér mat í hádeginu og í strætó. Hún fór síðan á markaði og keypti notuð föt og seldi síðan skólasystrum sínum. Í háskólanum aðstoðaði hún oft konur við fataval og lánaði þeim föt úr eigin fataskáp.
Keypti sér saumavél og fór á YouTube
Þegar Grace fékk ekki vinnu við áhugamálið hér á landi ákvað hún að gefast ekki upp, keypti sér saumavél og fataefni. „Ég byrjaði á því að læra í gegnum YouTube og gerðu það sjálfur (Do It Your Self) síður á netinu. Síðan fór ég á námskeið hjá breskri konu sem var að kenna konum frá Afríku hér á landi,“ segir Grace en konan aðstoðaði þær við að koma á framfæri hlutum og flíkum sem þær höfðu hannað sjálfar. „Ég fór og keypti efni og bjó til mína eigin línu fyrir viðburð sem var haldinn,“ segir Grace. Um svipað leyti fór hún á námskeið hjá Guðmundi Jörundssyni en hann rak á þessum tíma fatahönnunarfyrirtækið JÖR. Þar lærði hún að vinna með hugmyndir sínar og breyta þeim í vöru. Áður hafði hún farið á saumanámskeið og lært að sníða. Hún er eins og áður sagði með háskólapróf í markaðsfræði. Lagði drauminn til hliðar
Þrátt fyrir að hafa gengið með þann draum í maganum að stofna sitt eigið fyrirtæki taldi Grace að það væri ómögulegt fyrir hana á þessum tíma. Hún yrði að sjá fyrir sér og dóttur sinni og vinna frá 8 til 16. „Ég lagði því draum minn til hliðar og vann á leikskóla. Árið 2020 var ég með alls konar hugmyndir en sá ekki hvernig ég gæti látið þær rætast,“ segir Grace enda kostar það skildinginn að setja á stofn fyrirtæki.
Eftir að hafa lent í slysi fékk hún bætur og ákvað að nota þær til þess að stofna hlutafélag. Grace er í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA, og segir að konur innan FKA hafi veitt henni ómetanlegan stuðning og ráð við undirbúninginn og stofnun Gracelandic. „Ég er svo þakklát fyrir þetta og vona að ég geti gefið af mér í framtíðinni.“
„Ég starfa einnig með óháðum félagasamtökum (Non-Governmental Organisation) í Kenýa og rennur hluti af hagnaðinum til þeirra. Þegar þú kaupir vörur frá Gracelandic færðu gæði á hagstæðu verði, þú gefur til baka til samfélagsins, þú styrkir #whomademyclothes hreyfinguna og verndar umhverfið,“ segir Grace en hún stefnir á að byggja barnaheimili í Kenýa og styrkja góðgerðarsamtök sem berjast fyrir hagsmunum barna og efla konur.
Stendur fyrir lífshlaup hennar
Spurð út í nafn fyrirtækisins, Gracelandic, segir hún að það standi fyrir líf hennar og ferðalag um íslenskt samfélag frá því hún flutti hingað. „Það snýst um vöxt, sjálfsþróun, að finna þína innri fegruð og láta það skína af þér. Að skapa betri veröld, sýna hugrekki, gefa til baka og styðja hvort annað, sérstaklega konur,“ segir Grace.
Gracelandic hefur sett á markað sína fyrstu vörulínu, Don‘t try, en hún samanstendur af kvenfatnaði og fylgihlutum sem byggja á sjálfbærum lífsstíl og einfaldleika. „Mig langaði að hanna vörulínu sem væri einföld, praktísk og gæti gengið við hvaða tilefni sem er. Línan var öll hönnuð meðan á heimsfaraldrinum stóð og ég hef haft að leiðarljósi að Gracelandic geri konum kleift að líða vel og líta vel út, en á sama tíma sinnum við samfélagslegri ábyrgð.“ Hefur sjálfbærni og velferð að leiðarljósi
„Öll vörulínan er hönnuð með það í huga að viðskiptavinurinn getur raðað fatnaði og fylgihlutnum saman eftir eigin höfði, smekk og tilefni. Hönnunin byggir undir einfaldan og persónulegan stíl, frekar en að ýta undir þörfina fyrir að eiga fullan fataskáp af fatnaði og fylgihlutum fyrir ólík tilefni,“ segir á Gracelandic.
Að sögn Grace hefur hún sjálfbærni og velferð þeirra sem starfa með henni og umhverfið að leiðarljósi í framleiðslu Gracelandic. Að velgengi fyrirtækja geti skapað virði fyrir alla, það er jörðina, fólkið og fyrirtækið. Gracelandic er bara á netinu til að byrja með en Grace býður þeim sem hafa áhuga á að kynna sér vöruna betur að hafa samband við hana, svo sem upp á stærðir og annað að gera. Hún er í samstarfi við tyrkneskt fyrirtæki í borginni Izmir sem saumar fyrir hana og sendir hingað til lands. Í framtíðinni vonast hún til þess að fatnaður Gracelandic fari í sölu í verslunum hér á landi og jafnvel til að opna Gracelandic-verslun.
Source: https://www.mbl.is/
Author: Guðrún Hálfdánardóttir
Comments