top of page
Writer's pictureGrace Achieng

Vissi ekki að Ísland væri til

Updated: Feb 1, 2022


Allt byrjaði þetta með saumavél sem Grace keypti sér þegar hún flutti til Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
Allt byrjaði þetta með saumavél sem Grace keypti sér þegar hún flutti til Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Grace Achieng hef­ur búið á Íslandi í 11 ár en áður en hún flutti hingað vissi hún ekki að til væri land sem héti Ísland. Henni gekk jafn­vel illa að finna það á landa­korti. Hún hef­ur fest ræt­ur á Íslandi og Gracelandic er nýtt tísku­vörumerki sem hún á heiður­inn að.


Grace er fædd og upp­al­inn í borg­inni Kisumu sem er þriðja stærsta borg Kenýa. Hún lagði stund á nám í markaðsfræði í há­skóla í Mombasa áður en hún flutti til Íslands 25 ára göm­ul. Land­inu kynnt­ist hún fyrst í gegn­um sam­skipti við Íslend­ing á net­inu og neitaði að trúa hon­um þegar hann sagðist vera frá Íslandi. Hélt jafn­vel að hann væri að vísa til veðurfars­ins hér þegar hann talaði um Ísland. Þrátt fyr­ir að hafa leitað á korti gekk illa að finna þenn­an litla dep­il sem átti að vera á milli Græn­lands og Bret­lands. Nú 11 árum síðar er hún búin að koma sér vel fyr­ir á Íslandi og er með eig­in rekst­ur, draum­ar henn­ar eru á góðri leið með að ræt­ast.

Þegar Grace flutti til Íslands hafði hún áhuga á að starfa við tísku en fékk hvergi slíka vinnu, hvort sem það var í fata­búðum eða öðru á því sviði, þannig að hún vann ýmis störf fyrstu árin, svo sem í fisk­vinnslu og við umönn­un. Síðustu árin hef­ur hún unnið á leik­skóla og stefn­ir á BA-nám í ís­lensku við Há­skóla Íslands í haust.

Kjóll sem markaði upp­hafið

„Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og þegar ég var sex ára göm­ul gaf frænka mín mér kjól sem ég dáðist mikið að og fannst gam­an að klæðast,“ seg­ir Grace í sam­tali við blaðamann mbl.is. Frænka henn­ar var alltaf í fal­leg­um föt­um og vel til fara en hún átti tísku­vöru­versl­an­ir bæði í Kisumu og í Naíróbí, höfuðborg Kenýa. „Ég gleymi því aldrei hvernig mér leið þegar ég fór í kjól­inn og ég leit alltaf upp til frænku minn­ar.“


Þegar Grace var 16 ára göm­ul fór hún að leggja til hliðar pen­inga sem hún átti að nota til að kaupa sér mat í há­deg­inu og í strætó. Hún fór síðan á markaði og keypti notuð föt og seldi síðan skóla­systr­um sín­um. Í há­skól­an­um aðstoðaði hún oft kon­ur við fata­val og lánaði þeim föt úr eig­in fata­skáp.

Gracelandic.com
Gracelandic.com

Keypti sér sauma­vél og fór á YouTu­be

Þegar Grace fékk ekki vinnu við áhuga­málið hér á landi ákvað hún að gef­ast ekki upp, keypti sér sauma­vél og fata­efni. „Ég byrjaði á því að læra í gegn­um YouTu­be og gerðu það sjálf­ur (Do It Your Self) síður á net­inu. Síðan fór ég á nám­skeið hjá breskri konu sem var að kenna kon­um frá Afr­íku hér á landi,“ seg­ir Grace en kon­an aðstoðaði þær við að koma á fram­færi hlut­um og flík­um sem þær höfðu hannað sjálf­ar. „Ég fór og keypti efni og bjó til mína eig­in línu fyr­ir viðburð sem var hald­inn,“ seg­ir Grace. Um svipað leyti fór hún á nám­skeið hjá Guðmundi Jör­unds­syni en hann rak á þess­um tíma fata­hönn­un­ar­fyr­ir­tækið JÖR. Þar lærði hún að vinna með hug­mynd­ir sín­ar og breyta þeim í vöru. Áður hafði hún farið á sauma­nám­skeið og lært að sníða. Hún er eins og áður sagði með há­skóla­próf í markaðsfræði. Lagði draum­inn til hliðar

Þrátt fyr­ir að hafa gengið með þann draum í mag­an­um að stofna sitt eigið fyr­ir­tæki taldi Grace að það væri ómögu­legt fyr­ir hana á þess­um tíma. Hún yrði að sjá fyr­ir sér og dótt­ur sinni og vinna frá 8 til 16. „Ég lagði því draum minn til hliðar og vann á leik­skóla. Árið 2020 var ég með alls kon­ar hug­mynd­ir en sá ekki hvernig ég gæti látið þær ræt­ast,“ seg­ir Grace enda kost­ar það skild­ing­inn að setja á stofn fyr­ir­tæki.


Eft­ir að hafa lent í slysi fékk hún bæt­ur og ákvað að nota þær til þess að stofna hluta­fé­lag. Grace er í Fé­lagi kvenna í at­vinnu­líf­inu, FKA, og seg­ir að kon­ur inn­an FKA hafi veitt henni ómet­an­leg­an stuðning og ráð við und­ir­bún­ing­inn og stofn­un Gracelandic. „Ég er svo þakk­lát fyr­ir þetta og vona að ég geti gefið af mér í framtíðinni.“


„Ég starfa einnig með óháðum fé­laga­sam­tök­um (Non-Go­vern­mental Org­an­isati­on) í Kenýa og renn­ur hluti af hagnaðinum til þeirra. Þegar þú kaup­ir vör­ur frá Gracelandic færðu gæði á hag­stæðu verði, þú gef­ur til baka til sam­fé­lags­ins, þú styrk­ir #whoma­demyclot­hes hreyf­ing­una og vernd­ar um­hverfið,“ seg­ir Grace en hún stefn­ir á að byggja barna­heim­ili í Kenýa og styrkja góðgerðarsam­tök sem berj­ast fyr­ir hags­mun­um barna og efla kon­ur.

Gracelandic.com

Stend­ur fyr­ir lífs­hlaup henn­ar

Spurð út í nafn fyr­ir­tæk­is­ins, Gracelandic, seg­ir hún að það standi fyr­ir líf henn­ar og ferðalag um ís­lenskt sam­fé­lag frá því hún flutti hingað. „Það snýst um vöxt, sjálfsþróun, að finna þína innri fegruð og láta það skína af þér. Að skapa betri ver­öld, sýna hug­rekki, gefa til baka og styðja hvort annað, sér­stak­lega kon­ur,“ seg­ir Grace.

Gracelandic hef­ur sett á markað sína fyrstu vöru­línu, Don‘t try, en hún sam­an­stend­ur af kven­fatnaði og fylgi­hlut­um sem byggja á sjálf­bær­um lífs­stíl og ein­fald­leika. „Mig langaði að hanna vöru­línu sem væri ein­föld, praktísk og gæti gengið við hvaða til­efni sem er. Lín­an var öll hönnuð meðan á heims­far­aldr­in­um stóð og ég hef haft að leiðarljósi að Gracelandic geri kon­um kleift að líða vel og líta vel út, en á sama tíma sinn­um við sam­fé­lags­legri ábyrgð.“ Hef­ur sjálf­bærni og vel­ferð að leiðarljósi

„Öll vöru­lín­an er hönnuð með það í huga að viðskipta­vin­ur­inn get­ur raðað fatnaði og fylgi­hlutn­um sam­an eft­ir eig­in höfði, smekk og til­efni. Hönn­un­in bygg­ir und­ir ein­fald­an og per­sónu­leg­an stíl, frek­ar en að ýta und­ir þörf­ina fyr­ir að eiga full­an fata­skáp af fatnaði og fylgi­hlut­um fyr­ir ólík til­efni,“ seg­ir á Gracelandic.


Að sögn Grace hef­ur hún sjálf­bærni og vel­ferð þeirra sem starfa með henni og um­hverfið að leiðarljósi í fram­leiðslu Gracelandic. Að vel­gengi fyr­ir­tækja geti skapað virði fyr­ir alla, það er jörðina, fólkið og fyr­ir­tækið. Gracelandic er bara á net­inu til að byrja með en Grace býður þeim sem hafa áhuga á að kynna sér vör­una bet­ur að hafa sam­band við hana, svo sem upp á stærðir og annað að gera. Hún er í sam­starfi við tyrk­neskt fyr­ir­tæki í borg­inni Izm­ir sem saum­ar fyr­ir hana og send­ir hingað til lands. Í framtíðinni von­ast hún til þess að fatnaður Gracelandic fari í sölu í versl­un­um hér á landi og jafn­vel til að opna Gracelandic-versl­un.


Author: Guðrún Hálfdánardóttir

61 views0 comments

Comments


bottom of page